Hollvinasamtök Waldorfleikskólans Yls og Waldorfskólans Lækjarbotnum
kt. 580116-1750
Lækjarbotnaland 53
203 Kópavogur
Lög félagsins
1.gr.
Félagið heitir Hollvinasamtök Waldorfleikskólans Yls og Waldorfskólans Lækjarbotnum
2.gr.
Heimili félagsins og varnarþing er að Lækjarbotnalandi 53, 203 Kópavogur
3. gr.
Tilgangur félagsins er :
- að sameina vini og velunnara starfseminnar í stuðningi, sem lætur sig varða stöðu og framtíðarþróun þeirrar mikilvægu starfsemi sem fram fer í Lækjarbotnum.
- Að standa vörð um, taka þátt í umræðu um stöðu mála, þróun og mikilvægi starfseminnar t.a.m. með skipulagningu viðburða, myndun tengslanets og/eða faglegum stuðningi.
- Að styðja við starfsemi skólanna í Lækjarbotnum með söfnun fjár til uppbyggingar og tækjakaupa.
- Að auka tengsl fyrrum nemenda, fjölskyldna og aðra þá sem bera hag starfseminnar fyrir brjósti.
4.gr.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að:
- Á árlegum aðalfundi verður kynning á málefnum sem tengjast starfseminni í Lækjarbotnum. Einnig verður gefið út rafrænt fréttabréf sem sent verður á félagsmenn og einnig birt á heimasíðu samtakanna x2 á ári.
- Meðlimir samtakanna hafa alltaf möguleika á því að taka þátt í umræðu um stöðu mála á árlegum fundi samtakanna og einnig á opnum vettvangi (heimasíða, facebook). Einstakir félagsmenn samtakanna verða hvattir til að verða virkir í umræðu um starfsemina á opinberan hátt og einnig verður lögð áhersla á að gera starfsemina sýnilegri í sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins.
- Sérstakur tengiliður stjórnar samtakanna við starfsmannaráð Waldorfleikskólans Yls og Waldorfskólans Lækjarbotnum er ákveðinn af stjórn árlega. Tengiliður heldur utan um öll samskipti er varða Hollvinasamtökin og starfsmannaráð skólanna.
- Árleg félagsgjöld, frjáls framlög og tekjur vegna viðburða á vegum félagsins koma sem stuðningur til uppbyggingar og tækjakaupa starfseminnar.
- Árlega verður haldinn fjölskyldudagur á svæði Lækjarbotna. Tilgangurinn er að auka tengsl fyrrum nemenda, fjölskyldna og annarra sem eru í Hollvinasamtökunum.
5.gr.
Allir sem hafa áhuga á að ganga til liðs við samtökin hafa rétt á félagsaðild og er engin takmörkun á inngöngu.
6.gr.
Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Aðeins félagsmenn mega vera þátttakendur í aðalfundi.
7.gr.
Aðalfundur samtakanna skal haldinn árlega í síðasta lagi 1. mars ár hvert. Til hans skal boðað með a.m.k. 7 daga fyrirvara, með því að senda tölvupóst á póstlista samtakanna á heimasíðu félagsins (www.vinirwaldorf.is). Reyna skal að boða bréflega til þeirra sem ekki eru með skráðan tölvupóst. Aðalfundur er lögmætur sé rétt til hans boðað samkvæmt framansögðu.
Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
- Kosning fundarstjóra og fundarritara
- Skýrsla stjórnar lögð fram
- Reikningar lagðir fram til samþykktar
- Lagabreytingar
- Ákvörðun félagsgjalds
- Kosning stjórnar
- Önnur mál
8.gr.
Stjórn félagsins skal skipuð a.m.k. 4 félagsmönnum, formanni og 3 meðstjórnendum, kjörnum á aðalfundi til eins árs í senn. Stjórnin skiptir með sér verkum. Einn stjórnarmeðlimur er útnefndur tengiliður við starfsmannaráð Waldorfleikskólans Yls og Waldorfskólans Lækjarbotnum. Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Formaður boðar til funda. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.
9.gr.
Ákvörðun um félagsgjald skal tekin á aðalfundi ár hvert . Félagsgjöld skulu innheimt árlega með formlegum hætti. Haldin skal félagaskrá.
10.gr.
Félagsmenn gera ekki arðsemiskröfu til félagsins. Verði hagnaður af rekstri félagsins skal honum varið til að framfylgja markmiðum félagsins. Hagnað og tap má flytja milli ára.
11.gr.
Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með einföldum meirihluta atkvæða og renna eignir þess til Waldorfleikskólans Yls og Waldorfskólans Lækjarbotnum.
Lög þessi voru samþykkt á stofnfundi,
Dagsetning: 25. Nóvember 2015